laugardagur, 26. janúar 2008

Bold and the Beautiful

Ég fékk áskrift að Stöð2 að nýju í gær og að því tilefni horfði ég að sjálfsögðu á Bold and the Beautiful, sem ég tel vera bestu sápuóperu frá upphafi sápuóperanna! Að því tilefni ætla ég að leyfa ykkur sem ekki fáið að njóta þessarar sápuóperu vegna stöðvartvö-leysi að komast aðeins inn í fléttuna! NJÓTIÐ!


* Brooke Logan var upphaflega gift Ridge Forrester en hélt svo framhjá honum með Eric Forrester, “pabba” Ridge, og giftist honum. Saman eignuðust þau tvö börn, Rick og Bridget sem bæði voru talin börn Ridge í áraraðir. Brooke og Eric skildu og í kjölfarið byrjaði hún með Thorne, bróður Ridge. Babb kom í bátinn og þau skildu. Stuttu seinna eignaðist hún barn með Deacon sem var þáverandi eiginmaður Bridget Forrester, dóttur hennar sem hún eignaðist með pabba Ridge í framhjáhaldinu. Það gekk ekki upp og þá byrjaði hún aftur með Ridge og þau eignuðust tvö börn saman. Þegar látin eiginkona Ridge, Taylor, sneri aftur slitu Brooke og Ridge samvistum og Ridge tók aftur saman við Taylor í stuttan tíma. Ridge reynir nú eins og hann getur að fá Brooke til sín aftur en nú vill hún ekkert með hann hafa. Nú er hún unnusta Dominicks (Nick) Marone, sem er sonur Massimo og því hálfbróðir Ridge Forrester og vill Massimo að Brooke og Ridge séu saman, en ekki Brooke og Nick eins og staðan er núna.

*Jackie Marone hefur verið handtekin fyrir peningaþvott og fjársvik og situr fangageymslur meðan hún bíður þess að réttarhöld hennar hefjist. Nick, sonur hennar og Massimo Marone, kemur að Megan, starfsmanni hjá Forrester Creations, á skrifstofu móður sinnar og vekur það upp grunsemdir hjá honum um að hún sé eitthvað viðriðin málið. Brooke Logan, unnusta Nicks, ásakar Massimo um að hafa komið fyrrverandi konu sinni í þessa klípu. Í ljós kemur að Megan og Massimo eru ástfangin og hafa þau saman falsað skjölin gegn Jackie til að ná sér niðri á Nick sem myndi gera hvað sem er fyrir móður sína. Massimo vill að Brooke fari frá Nick og byrji aftur með Ridge.


*Ridge gerir allt sem í hans valdi stendur til að reyna að ná Brooke til sín á ný. Hann fær pabba Brooke, Stephen Logan, til að koma til þeirra frá París og hjálpa honum að sannfæra Brooke um að vera með Ridge. Brooke getur ekki litið við föður sínum vegna þess að hann yfirgaf fjölskyldu hennar þegar hún var lítil. Hann reynir að sættast við hana en hún vill það ekki. Hann heldur rosa flotta ræðu og þau fallast grátandi í faðma.


*Jackie segir Nick að Massimo hafi reynt að múta henni til þess að hjálpa honum að koma upp á milli hans og Brooke. Nick biður föður sinn að svara fyrir það og það endar í hótunum. Megan fer að fá bakþanka um að hafa hjálpað Massimo og vill hætta hjá Forrester Creations því hún getur ekki lengur þóst vera þeim jafn trú og hún hafði alltaf verið.


*Felicia Forrester, ein af tveim týndum systrum fjölskyldunnar, snýr heim ásamt ársgömlum syni sínum til þess að færa fjölskyldu sinni þær fregnir að hún sé dauðvona vegna krabbameins. Hún biður hálfsystur sína Bridget (Eric Forrester er pabbi þeirra beggja) um að ættleiða son sinn stuttu áður en hún deyr. Eftir að hafa náð tilfinningaböndum við drenginn nær Felicia skjótum bata og getur annast son sinn sjálf. Bridget og Felicia ákveða í sameiningu að vera báðar saman mömmur Dino litla.


http://www.tvguide.com/images/pgimg/bold-and-beautiful1.jpg

ÉG ELSKA DRAMATÍKINA Í ÞESSUM ÞÁTTUM! .........og ég er nokkuð viss um að ég sé eitthvað sjúk :S

sunnudagur, 20. janúar 2008

Grunnskólinn

Þó svo að ég hafi verið guðs lifandi fegin að vera laus við hann alveg síðan ég útskrifaðist úr honum þá er ég ekki frá því að ég sakni svolítið gamla grunnskólans míns, Breiðholtsskóla. Gömlu góðu kennararnir eins og Anna Fanney, Helga Hitler, Bjössi, Þórir leikfimiskennari, Helga myndmenntakennari, Láru Ingólfs, Hildur íslenskukennari, hin yndislega Helene Baatz, Sigurjónu, Arndísi og svo má ekki gleyma fólki eins og Ragga og Önnu Siggu aðstoðar- og skólastjóra, Magga deildarstjóra, Tollu gangaverði, Önnu baðverði, Óla feita og Arnþrúði á bókasafninu og Guðjóni tónmenntakennara sem allir voru skííííthræddir við. Nostalgían hríslast um mig alla við að rifja þetta allt upp.
Svo man ég líka alltaf eftir svo sérstökum hlutum. Skeiðinni sem Arndís kom með í skólann til þess að berja í kennaraborðið ef við vorum með læti, DJ-búrið góða sem var klárlega besti chill-staðurinn, svínafóstrin sem flutu í krukku fullri af formalíni inni á bókasafni ásamt uppstoppaðri tófu, kópi og krókódílaunga, hringborðið undir stiganum þar sem við fórum alltaf í laumu, hláturinn hans Óla feita sérstaklega eftir að hafa sagt okkur söguna um Flying Tigers, handboltavökunni, ferðinni á Skóga, skíðaferðalögunum og þá sérstaklega því síðasta þegar það var enginn snjór og við héngum inni allan tímann og horfðum á Death becomes her og Set it off og Kolbrún gerði fastar fléttur í alla og ég plokkaði augabrúnirnar á öllum og Doddi gleymdi töskunni sinni uppi í skóla og svaf undir sænginni minni eingöngu á nærunum! Gooooooooood tiiiiiimes!! Og svo gleymi ég því aldrei þegar ég, Dísa og Hildur vorum ritstjórar skólablaðsins og hugmyndakassanum var stolið. Ég var einmitt að youtube-ast eitthvað áðan og fann heimildarmyndina sem var gerð um þjófnaðinn og hún er algjör snilld! Ég setti hana hérna fyrir neðan en ef þið sjáið hana ekki klikkið þá hér! Njótið :)


mánudagur, 7. janúar 2008

Nýtt

Nýtt ár. Nýjar væntingar. Nýjar lexíur. Nýtt fólk. Nýjar minningar.


Nú er svo sannarlega komið nýtt ár, skólinn og vinnan byrjuð enn á ný og eru strax komin á fullt skrið. Lokaönnin mín í menntaskóla fer allt annað en rólega af stað og strax er alveg vitlaust að gera. Leiklistaræfingar byrja einnig í kvöld en leikritið verður frumsýnt eftir rúmlega mánuð og ég hef ekki enn fengið að sjá handrit svo að það verða væntanlega stífar æfingar út þennan mánuð.


Föðurfjölskylda Valda er búin að byggja bústað á Klaustri sem er loksins tilbúinn og við erum að hugsa um að skella okkur í fjölskylduferð næstu helgi. Það væri alveg kærkomið og yndislegt og ég myndi nota tímann til að reyna að þýða svolítið í kjörsviðsverkefninu mínu sem ég ætla að reyna að klára í þessum mánuði. Eins og sjá má á færslunni minni er ég frekar upptekin þennan mánuðinn. Og ekki nóg með það heldur er ég líka búin að bæta við mig meiri vinnu. Finnst viðeigandi að setja orðið „shit“ fyrir aftan þessa málsgrein.


Einmitt á því augnabliki sem þetta er skrifað er bróðir minn á leiðinni norður á Sauðárkrók en í heila viku ætla hann og maður að nafni Raúl González að skipta um hlutverk. Raúl er grunnskólakennari á Sauðárkróki og ætlar hann að koma til Reykjavíkur og lifa lífinu eins og bróðir minn lifir því daglega og öfugt. Ég hlakka rosalega til að hitta Raúl og þið getið lesið færsluna um komu hans hér.


Meira hef ég ekki að segja í bili. Í næsta bloggi ætla ég enn og aftur að rifja upp árið 2007 sem nú er liðið. Ég veit að þið bíðið spennt og iðið í sætunum ykkar.


Kv. Tinnan


PS. Ég hef fengið einhverjar kvartanir um að fólk geti ekki kommentað því að maður verði að vera skráður á blogspot.com til þess, en þið klikkið bara á comments og farið svo í "Other" eða "Anonymus" :)