mánudagur, 7. janúar 2008

Nýtt

Nýtt ár. Nýjar væntingar. Nýjar lexíur. Nýtt fólk. Nýjar minningar.


Nú er svo sannarlega komið nýtt ár, skólinn og vinnan byrjuð enn á ný og eru strax komin á fullt skrið. Lokaönnin mín í menntaskóla fer allt annað en rólega af stað og strax er alveg vitlaust að gera. Leiklistaræfingar byrja einnig í kvöld en leikritið verður frumsýnt eftir rúmlega mánuð og ég hef ekki enn fengið að sjá handrit svo að það verða væntanlega stífar æfingar út þennan mánuð.


Föðurfjölskylda Valda er búin að byggja bústað á Klaustri sem er loksins tilbúinn og við erum að hugsa um að skella okkur í fjölskylduferð næstu helgi. Það væri alveg kærkomið og yndislegt og ég myndi nota tímann til að reyna að þýða svolítið í kjörsviðsverkefninu mínu sem ég ætla að reyna að klára í þessum mánuði. Eins og sjá má á færslunni minni er ég frekar upptekin þennan mánuðinn. Og ekki nóg með það heldur er ég líka búin að bæta við mig meiri vinnu. Finnst viðeigandi að setja orðið „shit“ fyrir aftan þessa málsgrein.


Einmitt á því augnabliki sem þetta er skrifað er bróðir minn á leiðinni norður á Sauðárkrók en í heila viku ætla hann og maður að nafni Raúl González að skipta um hlutverk. Raúl er grunnskólakennari á Sauðárkróki og ætlar hann að koma til Reykjavíkur og lifa lífinu eins og bróðir minn lifir því daglega og öfugt. Ég hlakka rosalega til að hitta Raúl og þið getið lesið færsluna um komu hans hér.


Meira hef ég ekki að segja í bili. Í næsta bloggi ætla ég enn og aftur að rifja upp árið 2007 sem nú er liðið. Ég veit að þið bíðið spennt og iðið í sætunum ykkar.


Kv. Tinnan


PS. Ég hef fengið einhverjar kvartanir um að fólk geti ekki kommentað því að maður verði að vera skráður á blogspot.com til þess, en þið klikkið bara á comments og farið svo í "Other" eða "Anonymus" :)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá hvað ég hlakka til að komast í þennan bústað, og ég tala ekki um þegar það verður kominn pottur. Annars er ég sammála þér með hvað þetta ár hefur farið hratt af stað.