föstudagur, 30. nóvember 2007

Jordy Lemoine

Já, hver man ekki eftir honum Jordy sem fangaði hjörtu allra yngstu grunnskólabarnanna og elstu leikskólabarnanna hér á árum áður. Öll könnumst við við lög á borð við "Ooh lala bébé" og "Alison" og jólalaginu "C'est Noel" úr kvikmyndinni "Look who's talking now".
The image “http://krossfire.files.wordpress.com/2007/01/jordyold.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Jordy Lemoine sem er franskur að uppruna er fæddur 14.janúar 1988 og starfaði sem tónlistarmaður á árunum 1992-1996. Hann komst í heimsmetabók Guinnes fyrir að vera yngsti tónlistarmaður í heimi til að vera með lag í 1.sæti á vinsældarlista, en þá var hann einungis fjögurra og hálfs árs gamall. Lagið sem kom honum á kortið var 'Dur dur d'être bébé' (Það er erfitt að vera barn). Lagið var í fimmtán vikur í fyrsta sæti á vinsældarlista í Frakklandi en einnig náði lagi miklum vinsældum í Evrópu, Brasilíu, Bólivíu, Kólumbíu og Japan.

Árið 1994 bannaði franska ríkisstjórnin lög og myndbönd Jordy í útvörpum og sjónvörpum landsins vegna gruns um að foreldrar Jordy væru að notfæra sér frægð hans til eigin hagsmuna. Orðrómar þess efnis styrktust þegar Lemoine-fjölskyldan opnaði La ferme de Jordy eða Býli Jordy, í þeim tilgangi að laða að sér aðsókn ferðamanna og barna þeirra, en stuttu eftir að staðurinn opnaði fór hann á hausinn. Árið 1996 skildu foreldrar hans og hann sneri aftur í skóla. Seinna sótti hann um að vera lýstur sjálfráða fyrir tilsettan aldur og hann fékk það.

Ásamt þessari stuttu grein um Jordy ákvað ég að skella inn myndbandinu við lagið "Alison" sem ég fékk að láni frá YouTube. Einnig getið þið nálgast önnur myndbönd með Jordy á fyrrnefndri heimasíðu.



Heimildir: Wikipedia

mánudagur, 26. nóvember 2007

Stjörnustríð

Þá er búið að ráða í hlutverk í MS leikritið, en það hefur verið ákveðið að setja upp Stjörnustríðs-söngleik úr fyrstu Star Wars myndinni. Ég fer með hlutverk hernaðarráðgjafa Svarthöfða og er í æðsta ráði í heimsveldi keisarans, og fyrir (mig og) þá sem ekki vita neitt um Star Wars myndirnar þá er ég í herliði Svarthöfða og þjóna vonda gæjanum. En ég ætla að horfa á myndina þegar ég er byrjuð í jólafríi, og þá eru þær orðnar ansi margar myndirnar sem ég ætla mér að horfa á. Halldór Gylfason leikstýrir verkinu og hann er búinn að ráða sér aðstoðarmann sem heitir Orri Huginn Ágústsson, betur þekkur sem rödd Skjás Eins. Ég hlakka mjög mikið til að vinna með þessum mönnum, og eitt það skemmtilegasta sem ég veit er að ‘performa’ á sviði fyrir framan fjölda fólks svo að ég er mjög spennt yfir þessu öllu saman.


The image “http://upload.wikimedia.org/wikipedia/en/5/54/Peter_cushing_in_star_wars.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Þessi hérna er einn af hershöfðingjunum og fyrir aftan hann má sjá Svarthöfða

föstudagur, 23. nóvember 2007

Sykur

Ég er stödd í vinnunni, en ég vinn á Frístundaheimili. 90 börn fengu pizzu og svala klukkan tvö.

Sykurvíman leynir sér ekki. Hjálp!

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Jólasveinar

Ég hef aldrei getað munað hvaða jólasveinn kemur hvenær, fyrir utan þann fyrsta og þann síðasta. Því ákvað ég bæði fyrir sjálfa mig og lesendur bloggsins míns að 'googla' röð jólasveinanna og setja hér inn. Einnig, ykkur til yndislesturs, eru nöfn þeirra rituð á ensku. Njótið.

1. SHEEP WORRIER - Stekkjarstaur kemur 12.desember
2. GULLY GAWK - Giljagaur kemur 13.desember
3. STUBBY - Stúfur kemur 14.desember
4. SPOON LICKER - Þvörusleikir kemur 15.desember
5. POT LICKER - Pottasleikir kemur 16.desember
6. BOWL LICKER - Askasleikir kemur 17. desember
7. DOOR SLAMMER - Hurðaskellir kemur 18.desember
8. SKYR GLUTTON - Skyrgámur kemur 19.desember
9. SAUSAGE STEALER - Bjúgnakrækir kemur 20.desember
10. WINDOW PEEPER - Gluggagægir kemur 21.desember
11. DOOR SNIFFER - Gáttaþefur kemur 22.desember
12. MEAT HOOK - Ketkrókur kemur 23.desember
13. CANDLE BEGGAR - Kertasníkir kemur 24.desember


PS. Fékk 9,0 í munnlegu spænsku prófi áðan :D

mánudagur, 19. nóvember 2007

Stress

Fór á leiklistarprufu upp í MS áðan. Thalía ætlar að setja upp Stjörnustríðs-söngleik og Halldór Gylfason er búinn að vera í því að stjórna leiklistaræfingum nú í haust og hann verður líka leikstjóri sýningarinnar. Mér gekk alveg furðuvel. Ég var búin að ákveða að syngja eitthvað fyrir manninn fyrst að þetta verður nú einu sinni söngleikur, en eftir að hafa prufað að taka mig upp á tölvuna fannst mér ég hljóma alveg hræðilega og ég hætti við. En þegar inn var komið vildi maðurinn endilega fá mig til að syngja eitthvað fyrir sig og einnig að fara með ljóð fyrir sig. Ég sameinaði nú bara þessi tvö og söng fyrir hann “Sofðu unga ástin mín” og líkaði honum bara rosalega vel. Svo prufaði ég að lesa aðeins fyrir nokkur hlutverk, eins og til dæmis Lilju (Leia), R2D2 og Obi Van Kenobi sem hugsanlega verður kona. En ég ætla nú ekki að spilla þessu of mikið fyrir ykkur, þið verðið bara að koma sjálf og sjá sýninguna í febrúar á næsta ári. Ég er sjálf mjög ánægð með frammistöðuna, og svo fáum við að vita eftir viku hver hreppir hvaða hlutverk. (Vona bara innilega að ég verði ekki ráðin í hlutverk sem tré eða steinn eða eitthvað).

Annars mun ég væntanlega ekki eiga mér neitt félagslíf næstu 25 daga en að þeim loknum lýkur jólaprófunum í MS og verð ég þá laus frá öllum heimalærdómi, prófalestri, fyrirlestragerð, þýðingum, munnlegum prófum og allskonar verkefnum. Stressið er svoleiðis að fara með mig að ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera. En núna ætla ég að halda aðeins áfram með kjörsviðsverkefnið mitt, ég er að þýða fyrstu kaflana úr bók sem heitir “elsewhere” og er eftir Gabrielle Zevin. Hlakka rosalega til að vera búin með þetta.

En ég kveð að sinni. Verið nú góð hvort við annað elskurnar mínar.

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Eru jólin á næsta leiti?

Ég er nokkuð viss um að kennararnir í MS eru með samsæri í gangi um að leyfa nemendunum ekki að eiga sér félagslíf. Munnleg próf, lesa þessa bók á þessu tungumáli og hina bókina og helst að klára hana í gær, símatspróf, horfa á allskonar kvikmyndir sem eru farnar að renna saman í eitt og samt eigum við að vera löngu byrjuð að lesa fyrir jólaprófin! Úff, ég held bara að það fari að líða yfir mig. Og samt á eftir að gera svo margt fyrir jólin, kaupa og/eða búa til gjafirnar, skrifa jólakortin, gera jólahreingerninguna og svo miklu meira sem ég einfaldlega hef ekki tíma til að skrifa niður! Prófin hjá mér klárast 14.desember og þá vill maður ekki eiga allt eftir þannig að maður verður að vera búinn með allavega eitthvað af jóla-stússinu. Maður þyrfti bara að panta tíma hjá vini okkar Dr.Phil til að leita ráða.

En mig langaði til að skrifa niður myndirnar sem ég ætla að horfa á fyrir eða um jólin, og ykkur er velkomið að vera með og jafnvel koma með fleiri hugmyndir fyrir mig :)

Elf – The Grinch – Miracle on 34th street – Djöflaeyjan – Scrooged – Edward Scissorhands – Bridget Jones’s Diary – Home Alone I&II – The Nightmare Before Christmas – White Christmas ....endilega komið með fleiri hugmyndir af skemmtilegum myndum (þurfa ekki endilega að vera jólamyndir).

http://www.solarnavigator.net/geography/geography_images/Christmas_dvd_white_christmas_irving_berlin.jpg

föstudagur, 9. nóvember 2007

Áttatíogfimm

Eins og þið kannski sjáið er ég komin með nýja heimasíðu og gamla er því dottin út. Ég ætla að láta reyna á blogspot.com kerfið, ég er ekki mjög hrifin af þessum íslensku.


Ég fór á '85 ballið á Broadway í gærkvöldi. Klárlega skemmtilegasta ball sem ég hef farið á, og ég er ekki frá því að þetta sé skemmtiegasta '85 ball í sögu SMS. Ég má ekki skrifa í sögu MS vegna þess að Már rektor tók það skýrt fram að þetta ball væri ekki á vegum Menntaskólans við Sund, þið getið lesið um það hér.


Kvöldið byrjaði á undirbúningi í Rauðagerðinu þar sem Esther, mamma hans Valda, var svo yndisleg að lána mér sundbol til að vera í. “Outfittið” var sem sagt eins og hér segir:
Kvart-gammósíur, legghlífar, sundbolurinn góði, “Flashdance” bolur, mittisbelti og háir hælar. Eyrún var svo yndisleg að nenna að bylgja á mér hárið og ég málaði mig sjálf með gylltan augnskugga upp að augabrúnum. Svo tæmdum ég og Kristleifur heilan brúsa af glimmerspreyi yfir hárið á okkur og fötin. Við vorum hipp og kúl.


Fyrirpartýið var svo haldið heima hjá Mörtu Silfá í Grafarvoginum og vil ég þakka henni gestrisnina. Svo þegar ég kom á ballið byrjaði ég á því að týna Írisi Björk og var ég þess í stað með vinkonum hennar allt kvöldið, Katrínu og Agnesi. Þó svo að ég hafði aldrei nokkurntíman séð þessar stelpur áður þá skemmti ég mér konunglega með þeim og dansaði eins og ég ætti lífið að leysa. Moonboots og Herbert Guðmundsson voru alls engin vonbrigði og Danni Deluxe, fyrrum MS-ingur, engu að síður. Ballinu lauk svo á slaginu klukkan eitt eftir miðnætti og Valdi kom og sótti mig.


Á leiðinni heim langaði mig svo allt í einu alveg svakalega mikið í hamborgara. Alvöru sveittan hamborgara. Við stoppuðum á Select og mér til mikillar skelfingar komst ég að því að þau selja ekki hamborgara. Meira að segja Sóma-borgararnir voru búnir. Ég þurfti því að láta mér nægja að kaupa mér pulsu.


Ég fór berfætt inn á Select. Ég komst ekki aftur ofan í skóna mína, þeir meiddu mig svo mikið. Meðan ég svo beið eftir pulsunni sá ég að afgreiðslustúlkan tók pulsubrauðið úr pokanum með töng. Ég ákvað þá að deila vinnuháttum konunnar í matsalnum í MS með Valda og sagði honum að hún gæti ekki skipt volgum Trópí í kaldan vegna þess að þá gæti matsölunni verið lokað af heilbrigðiseftirlitinu. En hins vegar sér hún ekkert athugavert við að slá aldrei inn neina upphæð í kassann (er kannski verið að svíkja undan skatti?) og svo notar hún ekki hanska eða töng. Hún treður puttunum sínum inn í bakkelsið og tekur svo á móti smápeningum og treður puttunum svo inn í næstu matvöru. Hún notast ekki við neinskonar gerildeyði eða sápu á milli þess sem að hún snertir smápeningana og matvörurnar. Enda er ég hætt að versla við þessa konu.


Ég ætla svo að enda þessa færslu á viðeigandi hátt. Með mynd af mér frá ’85 ballinu. Kveð ykkur að sinni, Tinna.


http://a672.ac-images.myspacecdn.com/images01/23/l_f0710ceb7ada1e407448d8c8ae17013f.jpg

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

Ný síða

Þessi síða kemur í stað tinnah.bloggar.is