Sælir sambloggarar og aðrir merkilegir
Nú er haustið að koma og innan skamms verða laufin og grasið farin að taka litum og sýna okkur litagleðina sem einkennir haustið. En ég er með æðislegar fréttir. Eins og var löngu ákveðið þá hef ég tekið mér smá hlé frá skóla en ég útskrifaðist sem stúdent úr Menntaskólanum við Sund í vor og held að ég sé ekki tilbúin í frekara nám strax. Og þá hófst hin svakalega leit tvítugu stelpunnar að 100% vinnu fyrir veturinn. Eftir margar umsóknir, viðtöl og það sem virtist vera endalaus leit á netinu að lausum störfum sótti ég um "drauma" starfið og viti menn, ég fékk stöðuna! Ég er núna aðstoðarmaður verkefnastjóra á frístundaheimilinu Glaðheimar. Skrifstofuvinna fyrir hádegi og leika við börnin eftir hádegi. Ég ber meiri ábyrgð og er staðgengill verkefnastjóra þegar hún er ekki á staðnum.
En nú er svo að starfsmenn á frístundaheimilum (að verkefnastjórum og aðstoðarmönnum undanskildum) geta eingöngu fengið 54% vinnu en það er frá 13-17 mánudaga til föstudaga og svo til 17:30 einn dag í viku. Launin eru betri en á mörgum öðrum stöðum og þessi vinna hentar einkar vel með skóla, t.d. er hægt að vera 3 daga í viku eða bara hægt að koma og segja hvenær þið getið unnið og við gætum samið um vinnutíma. Eins og er þá er mannekla á hverju einasta frístundaheimili innan ÍTR svo að ef ykkur vantar vinnu eða ef þið þekkið einhvern sem vantar vinnu endilega látið mig vita. Síminn minn er 661-2703 og netfangið er tinnaheimis@internet.is. Þetta er rosalega skemmtileg vinna en dagurinn ykkar gæti m.a. falist í að perla, lita, róla, skera ávexti, syngja, spila, fara í koddaslag og ég gæti haldið endalaust áfram.
Svo má heldur ekki gleyma hvað ÍTR er awesome vinnustaður! Til dæmis í nóvember eru Tvenndaleikarnir og keppa þá frístundamiðstöðvar (í hverri frístundamiðstöð eru nokkur frístundaheimili og félagsmiðstöðvar) um veglegan bikar og montréttinn út næsta árið. Þá er líka alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast á vegum ÍTR og öll skyldunámskeiðin sem þið eruð skikkuð til að fara á (sem eru borguð í yfirvinnu og það er alltaf kvöldmatur eða snarl í boði) vega rosalega mikið fyrir ykkur í framtíðinni. Ég er t.d. búin að fylla ferilskrána mína af námskeiðum sem ég er búin að fara á hjá ÍTR og fólki finnst það rosalega merkilegt þegar ég sæki um starf. En núna hlýt ég að vera búin að selja einhverjum þetta starf! Hafið samband við mig fólk :) Og enn einu sinni, síminn er 661-2703 og netfangið tinnaheimis@internet.is
Kv. Bara Tinna aðstoðarmaður í Glaðheimum
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli